Lög Fjallsins, félags jarðvísinda-, land- og ferðamálafræðinema
1. grein
Félagið heitir Fjallið, félag jarðvísinda-, land- og ferðamálafræðinema við Háskóla Íslands.
Merki þess er:
Heimili þess er Askja, Náttúrufræðihús Háskóla Íslands við Sturlugötu 7, 101 Reykjavík.
2. grein
Félagar eru allir þeir sem stunda nám í Háskóla Íslands og greiða félagsgjöld hverju sinni. Stjórn Fjallsins ákveður upphæð félagsgjalda í upphafi hvers skólaárs.
3. grein
Lög Fjallsins skulu vera á heimasíðu þess.
4. grein
Markmið félagsins eru:
- Að vinna að hverskonar hagsmunamálum félagsmanna
- Að efla samskipti félagsmanna
- Að standa fyrir fræðslu- og skemmtanastarfsemi
5. grein
Stjórn Fjallsins skipa:
- Forseti:
Er andlit félagsins, ábyrgðarmaður og hagsmunafulltrúi. Hann skal gegna embætti fundarstjóra á stjórnarfundum. Hann sér um samskipti við önnur nemandafélög, deildir og önnur embætti innan Háskóla Íslands. Forseti er sjálfskipaður inní NáttVerk sem er hagsmunafélag verkfræði og náttúruvísindasviðs. Forseti félagsins ber að sitja námsbrautar-, deildarráðs- og deildarfundi Jarðvísindadeildar og/eða Líf- og Umhverfisvísindadeildar eftir því hvorri deild hann kemur úr.
- Gjaldkeri:
Sér um öll fjármál félagsins og undirfélög, gerð fjárhagsáætlun, bókhald, innkaup, útgjöld, umsóknir styrkja og annað sem að viðkemur fjármálum félagsins. Gjaldkeri verður að hafa náð 20 ára aldri.
- Varaforseti:
Varaforseti gegnir starfi ritara á stjórnarfundum og sér um að skrá helstu atriði stjórnarfunda og aðrar bréfaskriftir fyrir hönd Fjallsins. Hann sér um póstfang Fjallsins, fjallid@hi.is. Auk þess sem hann gegnir hlutverki formanns í fjarveru hans. Varaforseti sér um varðveita fundargerðir stjórna og setja í möppu fyrir framtíðar stjórnir.
- Skemmtanastjóri:
Sér um að skipuleggja vísindaferðir ásamt því að skipuleggja bjórkvöld, haustferð, árshátíð og aðrar skemmtanir í samráði við aðra stjórnarmeðlimi. Skemmtanastjóri getur búið til nefndir og klúbba innan Fjallsins.
- Kynningarstjóri:
Sér um að kynna viðburði á vegum Fjallsins á bæði íslensku og ensku. Hlutverk hans er að setja inn tilkynningar og fréttir á síður félagsins sem og tilkynningartöflu um þá viðburði sem eru á vegum Fjallsins ásamt því að senda markpóst á meðlimi félagsins. Kynningarfulltrúi sér einnig um að ljósmyndir séu teknar á þeim viðburðum er Fjallið stendur fyrir og gera þær aðgengilegar.
- Fulltrúar 1. árs nema og skiptinema:
Valdir af stjórn Fjallsins í byrjun hvers skólaárs. Þeir verða að vera á fyrsta ári í jarðvísindum, land- eða ferðamálafræði. Æskilegt að fá einn fulltrúa úr hvorri deild. Einnig er valinn fulltrúi erlendra skiptinema. Þeir eru tengiliðir fyrsta árs nemenda og skiptinema við stjórn Fjallsins. Hlutverk fyrsta árs nemenda og skiptinema er að veita nýnemum og erlendum nemum tengingu við stjórn. Þeir hafa ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum en hafa tillögurétt.
- Fjallageitin:
Er viðburðastjóri Fjallasnigilsins sem er gönguklúbbur innan Fjallsins. Hann sér um að skipuleggja gönguferðir, fjallgöngur, hellaferðir og aðra viðburði úti við á vegum Fjallasnigils og Fjallsins í samráði við aðra stjórnarmeðlimi. Fjallageitin situr stjórnarfundi ef þurfa þykir en hefur ekki kosningarétt.
- Viðauki við störf stjórnar:
Framkvæmdarstjórn Fjallsins skipa: Forseti, Varaforseti Gjaldkeri, Kynningarstjóri og Skemmtanastjóri.
Þetta eru þau störf sem embættin gegna formlega. Annað sem viðkemur störfum Fjallsins skal unnið í sameiningu.
- Vantraust:
Ef meðlimir stjórnar telja einhvern meðlim stjórnarinnar ekki gegna embætti sínu sem skildi er hægt að lýsa vantrausti á þann aðila. Kosið skal um hvort hann eigi að gegna embætti áfram.
Ef meirihluti stjórnar er sammála skal sá og hinn sami segja af sér. Auglýsa skal embættið, ef fleiri en einn bjóða sig fram, skal boða félagsfund þar sem haldnar eru kosningar annars getur stjórn Fjallsins skipað í embættið ef enginn sækist eftir embættinu.
6. grein
Rétt til boðunar stjórnarfunda hafa:
- Forseti
- Varaforseti
- Þrír eða fleiri fulltrúar í stjórn
7. grein
Stjórn félagsins skal halda almenna félagsfundi ef þörf krefur. Stjórn félagsins er heimilt að skipa nefndir og/eða einstaka starfsmenn til að vinna að ákveðnum málefnum í lengri eða skemmri tíma. Hér er vísað sérstaklega til haustferðar eða árshátíðar. Heimilt er að fela slíkum nefndum eða starfshópum að boða til og sjá um félagsfundi.
8. grein
- Aðalfund skal halda árlega eigi síðar en 2 vikum fyrir próf. Til hans skal boða með að minnsta kosti viku fyrirvara. Rétt til fundarsetu hafa allir nemendur innan Jarðvísinda-, Land- og ferðamálafræðinemar innan Háskóla Íslands en kosningarétt hafa einungis félagsmenn Fjallsins.
- Dagskrá aðalfundar skal vera eftirfarandi:
- Fundarstjóri kosinn
- Skýrsla fráfarandi stjórnar
- Ársuppgjör gjaldkera
- Lagabreytingar
- Kosningar
- Önnur mál
- Lagabreytingar skulu kynntar með þriggja daga fyrirvara. Hlutfall atkvæða ræður á aðalfundi en 2/3 samþykktra atkvæða þarf til lagabreytinga. Atkvæðagreiðsla fer fram með handauppréttingu.
- Kosningar:
Allir félagsmenn geta boðið sig fram í embætti í stjórn. Kosið skal til framkvæmdarstjórnar og embætti Fjallasnigils með sama hætti og lagabreytingar nema þar ræður einfaldur meirihluti viðstaddra. Fari einn eða fleiri félagsmenn fram á leynilega atkvæðagreiðslu skal við því orðið. Komi upp jafntefli í kosningum skulu gild atkvæði talin aftur. Standist jafntefli ennþá skal kosið milli þeirra sem flest atkvæði fengu. Sé ennþá jafntefli eftir síðari kosningu skal útkljá málin með hlutkasti. Sé aðeins einn frambjóðandi í embætti þarf ⅓ atkvæða til að hljóta kosningu.
9. grein
Fráfarandi stjórn skal halda fund með verðandi stjórn, kynna helstu starfsemi og vera til aðstoðar sé þess þörf. Ný stjórn skal taka þátt í störfum fráfarandi stjórnar eftir aðalfund og taka við formlega 1. júní.
10. grein
Ákvæði um störf og völd stjórnar. Bera þarf allar ákvarðanir undir alla meðlimi framkvæmdarstjórnar Fjallsins. Hver stjórnarmeðlimur í framkvæmdarstjórn hefur sinn atkvæðisrétt og skal meirihluti atkvæða ráða. Falli atkvæði jafnt með og á móti skal atkvæði formanns gilda tvöfalt.
11.grein
Fjallið nemendafélag skal alltaf hafa jafnréttissjónarmið að leiðarljósi og bera höfuðið hátt. Fjallið skal vera til fyrirmyndar í umhverfismálum.
12.grein
Fjallið nemendafélag ber alltaf að stefna á sigur í hverju sem þeir taka sér fyrir hendur því í Fjallinu eru ekki taparar.
13.grein
Lög Fjallsins skulu ávallt vera kölluð Jarðlög fjallsins.
14.grein
Lukkudýr Fjallsins er Snilli Fjallasnigill. Snilli skal vera viðstaddur á stórum viðburðum Fjallsins. Stjórn Fjallsins sér um að hann sé vel með farinn og að hann sé afhentur nýrri stjórn við stjórnarskipti.